Færsluflokkur: Ljóð

Betlikerlingin

Hún hokin sat á tröppum og hörkufrost var á
og hnipraði sig saman uns i kuðung hún lá
og kræklóttar hendurnar titra til og frá
um tötrana að fálma sér velgju til að ná
og augað var svo sljótt sem þess slöknað hefði ljós
í stormbylnum myrka um lífsins voða ós
Það hvarlaði gápandi stefnulaust og stirt
Og staðnæmdist við ekkert svo örvæntinga misst
Á enni sátu rákir og hrukka hrukku sleit
Þær heljarrúnir sorgar sem enginn síðar veit
Hve skýra kann frá prísund og plágum öllum þeim,
sem píslavottar gæfunnar líða hér í heim.
Hún var kanski perla sem týndi tímans haf
Var töpuð og glötuð svo enginn vissi af
Eða gimsteinn sem forðum var greiptur langs í baug,
en glerbrot var hún orðin á mannfélagsins haug. (höfundur ókunnur).

Tíminn, þrautirnar og ég

Tímann að tefla í vanda,
tel ég lánið mitt best.
Raunir í rauntíma standa,
ræð við það flest.

Birgðir á bakinu þínu,
berðu ei fortíðar þraut.
Gerðu ei gagnlausa pínu,
gjörðir á liðinni braut.

Framtíðin falin þér sýnum,
fegurð sem dulin er mér.
Áhyggjur villir á tímum,
annað svo dagurinn ber.

Best er bjartsýni að veita,
brosa og ætla sér gnótt.
Hamingju hampa og leita,
hvern dag og sérhverja nótt.


Bros til pabba

Löngum hefur lífsins gleði

lokkað bros á þína brá.

Drenglyndur í dagsins streði,

dag hvern ég segi frá.


Síðasta Harry Potter bókin, sala bókanna göldrum líkust.

Harry Potter hvert árið ærir
heiminn og veldur æði.
Bókaorminn á bókum nærir
bíómyndum og ýmsu andansfæði.

 


Andinn og efnið.

Þó stríð herji skrokkinn á,

skír rís hugur glaður.

Því sælla er þeim að gefa en fá,

það veit sérhver maður. 

 

Foreldrar mínir eru mikið veikir en yndislegt að vera í návistum við þau nú sem endranær. Pabbi orti eftirfarandi vísu;

St. Jósepsspítali. 12. júní 2007

Oft vill kulna gömul blóð

og gildir stofnar falla

Nú er ég með nunnublóð

og náttúrulaus að kalla.

            Sveinbjörn Ingimundarson.

 

Ákall

Volduga jörð verndaðu þjóðanna sátt

veittu hjörð þinni mátt

stefndu huganum hátt

heyrðu Goðanna þátt.

 

                 Eygló Markúsdóttir


Sölkuhús

Ég fór með móður minni til Akureyrar síðast liðin vetur og gisti á gistihúsinu Sölku.  Mamma skildi eftir sig vísu, enda mjög hagmælt og tilefnið var að við vorum síðustu gestir húsráðanda.  Það kom í ljós að þetta var önnur vísan sem gistiheimilið hafði fengið en 4. september árið 1990 voru á ferð frænka mín Margrét Jóna Ísleifsdóttir og Pálmi Eyjólfsson maður hennar.  Hann orti alla sína tíð mjög skemmtilegar vísur og langar mig að leyfa ykkur að heyra vísuna hans.

Á Sölkuhúsi ég svaf í nótt
sofnaði bæði vel og fljótt.
Drottinn! hvað vel mig dreymdi,
áhyggjur hurfu alveg strax,
Efldur ég fagna komu dags
og vonda veðrinu gleymdi.

    Pálmi Eyjólfsson 


Hjartað mitt

 

Hjartað mitt, þú hefur unnið,

hátt rís gleði mín.

Blíðlegt bros um vanga runnið

björtu eru augun þín.

 

Dögum vil deila og órum

daglangt sem nætur.

Fann í hugans fórum

fræ og gleðinnar rætur.



Kveikja kvenfélagsins


Kveikja kvenfélagsins

var konunnar leyndaþrá,

metnaður morgundagsins

að mega takast hér á

við torsóttar þrautir og þora,

að þræða hinn grýtta mel.

Glíman um gæfu vora

getur því endað vel.

Visku sýndu í vanda

vertu í engu hálf.

Máttugir margir standa,

mundu að vera þú sjálf.

 

Skopið um skoðanir kvenna

skyggir á líf þeirra enn

og viljinn að viðurkenna

að vitaskuld eru þær menn.

Kona hvað ertu kona

kroppur eða hefurðu sál.

Seiglu að sigra og vona,

sýn til að leysa hvert mál,

er horfir til heilla og vekja

hvern vilja er áður svaf,

til dáða og deyfðina hrekja

og dásvefninn hrista þeim af.

          Eygló Markúsdóttir



Um stökuna

Stakan viðrar von og þrá
vekur speki ríka.
Því hún gefur innsýn á
andans myndir líka.

Eygló Markúsdóttir 


Jón

Afmælisvísa, fyrri partur frá Jóni Sveinbirni Óskarssyni og botnað af ömmu hans Eygló Markúsdóttur. 

Jón er heppinn, Jón er frjáls
jafnan tekur svo til máls
Andinn sigrar enn til hálfs
aflið finn í köglum sjálfs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband