Færsluflokkur: Ljóð

Umferðahnútur

Í bílalest og bílar mjakast
bara eitt hænufet.
Tíminn líður taugar þjakast
taugaveiklun setur met.

Þolinmæðin þrautir vinnur allar
þar með talinn bílaorm.
Við stýrið vinnan okkur kallar
við þolum illa svona dorm.

 


Hugleiðsla


Frið ég finn í djúpri ró
fátt um hugann reikar.
Hlýja  streymir, hugarfró
hjartað bærist veikar.

 

Styrkur ertu skapari minn
söngur í hjarta ómar.
Í ljósi þínu læt um sinn
lögin þýðu hljóma.

 

Ástin flæðir engin mörk,
átt í þessum heimi.
Þér ég skrifa þessa örk,
þökk í hjarta geymi.


Hlátur

Hlátur frískar huga og gleður

hleður upp orku fína.

Lengir víst lífið, sorgir kveður,

lífsgleði bætir þína.


Viltu vinur vera?

Þungi og þrautir lamar,
þrek og geð.
Fáu treystir framar,
firna lítið peð.

Vinur er vill mig bera,
vernda í heimi hér
Á stundum slíkum gera,
sátt er hentar mér.


Él

Þó éli þykkt á okkur hér,
þeki götur auðar.
Enginn tekur eftir þér,
inni situr og puðar.

Brosið okkar birtu veitir
bætir allra hjartalag.
Svona geta hjarta heitir,
sælu gefið þennan dag.


Önuglyndi

Þó lundin súrni linnulaust
leggst sem mara á vitin.

Lítið hef á láni traust
ljót og veðurbitin.

Veður vont

Sumir dagar sleni haldnir
sveipaðir drunga og þreytu.
Ruddi með roki baldnir,
raka og aftaka bleytu.


Móðir mín

Dag hvern dásama verkin þín

dugnað og speki alla.

Kenndir mér kynstrin, veittir sýn.

Kosti um skal fjalla.

 

Vel til handana verka góð,

visku safnað í mikinn sjóð.

Í hugans eldmóð hefur glóð,

hagyrðingur kæra fljóð.

 

Í hjartanu finn hve ástin brann

hvern dag af kærleik til þín.

Bernsku mína bætti, það fann

bessuð sértu Eygló mín.


Ásatrúarbrúðkaup við Skógarfoss 13.8.2005

Göngum til brúðkaups og guðina biðjum

Brúðhjónin leysa frá hversdagsins viðjum

Gestirnir fagna því gleðin er djúp

Gróður í bakgrunn í fossúðans djúp.

 

Himins salurinn húsi er betri,

hefur nú létt af sér kulda og vetri.

Vítt er til veggja og festingin há,

voldug er byggingin guðunum hjá.

 

Skyldi hér gnægði af goðum að sjá

gengna úr jöklunum fjöllunum á,

guðirnir allir að ástinni hlynni.

Að endingum kneyfum hér brúðhjóna mynni.

 

Eygló Markúsdóttir


Snjór

Fínleg liggur fönnin hvíta
færir okkur hreinan skjöld
Skaparinn má stoltur kríta
silkimjúka mynd á tjöld.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband