Áramótaminning

Ég var alin upp í sveit þar sem var mikil álfa og huldufólksbyggð.  Oft var það þannig að ef grípa átti til hluta á heimilinu að viðkomandi hlutur var ekki til staðar.  Mikið var leitað og svo nokkru síðar fannst svo hluturinn þar sem hann var vanur að vera.  Þá var talað um að skýringin á því væri sú að huldufólkið hafi fengið viðkomandi hlut að láni og skilað honum svo.

 

Um áramót varð allt að vera skínandi hreint í húsinu og til gamans meira en í alvöru fór mamma með eftirfarandi þulu er hún gekk réttsælis, hringin í kring um húsið. 

 

Komi þeir sem koma vilja

Veri þeir sem vera vilja

Fari þeir sem fara vilja

Mér og mínum að meinalausu.

 

Einnig sagði hún mér frá gömlum sið frá langömmu minni úr Fljósthlíðinni.  Þar var ekkert rennandi vatn eða útrennsli fyrir skolpið og skolpinu þurfti að vara búið að hella út fyrir kl. 6 á gamlárskvöld svo það færi ekki í föt huldufólksins sem var á ferli að hafa vistaskipi.

 

En trúin var sú að um áramót flyttust álfar og huldufólk búferlum og mikilvægt var að lifa í sátt og samlyndi við þá.  Ekki var það óalgengt að huldufólkið kæmi til húsráðanda í svefni og léti vita af skepnum sem væru í lífsháska eða varaði við vondum veðrum.  Jafnvel átti huldufólki það til að senda lækna til heimilisfólksins til þess að lækna það af sjúkleika.

 

Einnig var trúin sú að á jólanóttu og nýjársnóttu gætu kýrnar talað og var þá ekki gott að vera á ferli í fjósinu því það að upplifa þessa umbreytingu gat gert fólk vitfyrt.

 

Alltaf var haldin áramótabrenna og var það iðulega að eldurinn blossaði upp eftir að farið var frá brennunni, en þá voru álfarnir að dansa í kringum blálið, en þeir gættu þess þó að við gætum ekki séð þá, voru væntanlega með yfir sér hulinshjálm svo þeir yrðu ekki fyrir truflun frá forvitnu mannfólki.

 

Mikið var sungið og spilað fram undir morgun eða eins lengi og hver og einn hafði getu til að vaka.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á bænum þar sem ég var í sveit sem stelpa voru að minnsta kosti tvær álfahallir sem alltaf varð að umgangast með takmarkalausri virðingu. Mér finnst alltaf dálítill sjarmi yfir öllu sem tengist álfum og álfatrú

En innlitið er til að óska þér og þínum gleðilegs árs með kæru þakklæti fyrir gefandi samskipti á líðnu ári

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 1.1.2008 kl. 00:29

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Frábær frásögn Ester.

Ég man einmitt eftir því að mér fannst það nokkuð áhugavert á að kýrnar gætu hugsanlega talað á nýársnótt en ég var svo myrkfælin að mikið hefði þurft til að ég færi ein út í fjós í könnunarferð.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.1.2008 kl. 00:58

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég fór einu sinni, en hitti ekki á töfrastundina, ég staldraði heldur ekki lengi við, það gat verið eitthvað til í því að fólk yrði sturlað á því að hlusta á tal þeirra.  En sjálfsagt minni líkur en að áramótaspá völvunar rætist, en þar sannast hið fornkveðna að sjaldan ratast kjöftugum satt orð af munni.

Ester Sveinbjarnardóttir, 1.1.2008 kl. 01:18

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Yndisleg frásögn.  Man eftir þessu "Komi þeir sem ..." var oft þulin heima hjá mér og ömmu mínum.  Vona að þú hafir einhvern tíma á nýju ári til að deila fleiri góðum sögum með okkur.

Ásdís Sigurðardóttir, 1.1.2008 kl. 01:22

5 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

He he, datt mér i hug að mín hefði farið slíka rannsóknarferð....

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.1.2008 kl. 01:26

6 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Ég er búin að vera mjög upptekin síðan í sumar og sé reyndar ekki fram á rólega tíma á þessu ári, en það er gaman að kíkja hér inn og lesa það sem þið kæru bloggvinir eru að skrifa, svo margt fróðlegt, skemmtilegt og uppbyggjandi.

Ester Sveinbjarnardóttir, 1.1.2008 kl. 01:30

7 Smámynd: Hallgrímur Óli Helgason

kannast við svona sögur úr sveitinni minni, gleðilegt árið til þín og þinna, og þakka fyrir það gamla

Hallgrímur Óli Helgason, 1.1.2008 kl. 02:59

8 Smámynd: Guðrún Birna le Sage de Fontenay

Gleðilegt nýtt ár Ester mín

Ég á nú nokkrar af mínum bestu minningum frá áramótum í Yzta-Bæli og við höldum enn í hefðir eins og að syngja, kveikja á kertum og láta þau brenna inní nýja árið

Guðrún Birna le Sage de Fontenay, 1.1.2008 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband