20.6.2007 | 22:15
Dæmisaga
Vá bara eitt ár, þetta eru skelfilegar fréttir.
Hvað getur þú gert, hvað með fjölskylduna, vini og þig sjálfa?
Ert þú tilbúinn að fara? Ertu búinn að gera allt sem þú ætlaðir að gera í lífinu? Hvernig ertu stödd, lifir þú hamingjusömu og innihaldsríku lífi, sátt við allt og alla og allir sáttir við þig.
Hvernig verður þín minnst þegar þú ert farinn? Glaðlind, hlý, gefandi og alltaf tilbúinn til hjálpar af fúsum og frjálsum vilja en ekki af því að þú neyddist til þess, það er ekki hjálp til annarra ef það er ekki gert af heilum hug heldur til að friða sjálfa þig og þú neyðist til. Já þetta vilja flestir en getur verið að þú sért ekki ein af þeim sem líst er hér að ofan, kannski ekki hamingjusöm, lifir ekki innihaldsríku og skemmtilegu lífi, alls ekki sátt við fjölskyldu og vini, kannski gömul beiskja og óvild eða ónot sem þú manst ekki lengur hvernig byrjaði en gamli góði vaninn hefur haldið við. Stundum gleymum við að orð eru sterkustu og hættulegustu vopnin í höndum okkar, við getum framið verstu glæpi með orðum því ekkert særir jafn djúpt og slæm orð, þau getum við aldrei tekið til baka og aldrei réttlætt.
Þó aðrir hafi sært þig á þann hátt, þá réttlætir það þig ekki. Það sem gerðist í gær eða hefur gerst er liði og þú breytir því ekki.
Fortíðinni getum við ekki breytt en nútíðin og framtíðin eru á okkar valdi og þar getum við breytt, en hvernig, jú með því að gera stórþvott á okkur sjálfum og íhuga hvað við viljum segja og gera í nútíð og framtíð og skoða hvað í rauninni skiptir máli í lífinu. Ekki gleyma að þú átt bara eitt ár eftir og þú verður að skoða hvernig þú ætlar að verja því, leggjast niður og gráta aumingja ég hræðilega á ég bágt æ, æ, eða nota það til að breyta því sem þú getur breytt og reyna að sjá hvað skiptir máli.
Ég vona að það séu ekki ný gluggatjöld, sófasett, parket eða hvað annað af einskins verðum hlutum, því þú getur verið örugg um að þess háttar græjur tekur þú ekki með þér.
Það sem þú tekur með þér eru góðverkin sem þú gerðir hlýjan sem þú sýndir og minningarnar um góða manneskju.
Það er á þínu valdi að breyta þér, þér kemur ekkert við hvort aðrir breyta sér, það er þeirra mál, en þú berð ábyrgð á þér og þínum orðum og gjörðum.
Allar gjörðir byrja á þeirri fyrstu og öll orð á því fyrsta. Hvað vilt þú segja við aðra, hvernig viltu að aðrir hugsi til þín, með hlýju og kærleika eða beiskju, slæmum hug eða beri vondar minningar um þig.
Það er svo mikilvægt að muna að vera ekki alltaf að bíða eftir að aðrir breytist og bæti sig. Við verðum að byrja á okkur sjálfum og ef við erum ekki ánægð verðum við að reyna að laga það, ekki velta því yfir á aðra til að þeim líði eins og okkur. Það tekur tíma að tileinka sér betri hugsun og leifa sér að njóta þess að lifa sjálfum sér og öðrum til gleði.
Bíddu af hverju þarf ég að breyta mér?
Af hverju ekki hinir, ég á sko ekki allt sem sagt er eða gert. Hvað með alla hina ha?
Þér kemur ekki við hvað aðrir segja eða gera, það skiptir máli hvað þú segir eða gerir þér mun líða betur og líf þitt breytist til hins betra ef þú berð ábyrgð á þér ekki náunganum.
Þú sendir frá þér skilaboð og færð þau til baka í sömu mynt ef ekki, þá aumingja þeir því eflaust eiga þeir bara eitthvað erfitt.
Ég veit ekki hvort þú átt eitt ár eftir en málið er að þú veist það ekki heldur.
Hvað ætlar þú að skilja eftir þig og hvað ætlar þú að taka með þér.
Þitt er valið og gangi þér vel í lífinu.
Móðir Jörð
Flokkur: Hugleiðsla | Facebook
Athugasemdir
Situr mín bara við að semja sögur og ljóð ?
kv.gmaria.
Guðrún María Óskarsdóttir., 20.6.2007 kl. 22:25
Ekki slæmt þetta. Það er þess virði að stoppa við og hugsa um þessi mál. Fyrir hvað vill maður láta minnast sín? og hvað er mikilvægast að gera fyrir sig og aðra.? Takk fyrir pistilinn.
Ásdís Sigurðardóttir, 20.6.2007 kl. 22:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.