Færsluflokkur: Lífstíll

Fjölmiðlar, keppa og mannvitsbrekkur!

Hvern fjandann er fólkið að meina?

Fjölmiðlar taka ekki um annað en kreppuna og neyðist ég til að hlusta á eða lesa kreppufréttir daginn út og daginn inn. Auðvitað finnst mér þetta alveg hræðilegt og allt það  en  það er eitt sem ég skil ekki. Flestir tala um að nú sé kominn tími  til að sinna börnunum sínum, fjölskyldu og vinum.

Hvað í andskotanum  heldur þetta fólk að íslenskur almenningur hafi haft fyrir stafni?
Skyldi  það ætla að við höfum verið viti okkar fjær og stigið trylltan dans í  kringum gullkálfinn á meðan börnin okkar, vinir og ættingjar lágu  óbættir hjá garði? Umkomulausir og einmana þar sem enginn hafði  nokkurn tíma fyrir þá?

Ég sjálf og allir sem ég þekki hafa nú verið uppteknir af því að  vinna fyrir sér, að vísu ekki að vinna fyrir bankastjóralaunum heldur bara  svona til að eiga fyrir salti í grautinn.  Þessi sauðsvarti almúgi
sem  ég þekki hefur bara hugsað vel um börnin sín, takk fyrir.  Hringt í  vini og ættingja og heimsótt þá jafnvel ef sérlega vel hefur legið á  fólki.

Mér finnst þessi umræða gjörsamlega fáránleg. Það er verið að  slá ryki í augun á okkur með því að við getum nú gert svo margt gott og  nytsamlegt þótt búið sé að ræna okkur aleigunni og marga starfinu.

Nú þakkar maður fyrir það helst að hafa þó vinnu. Það er verið að  koma inn hjá okkur samviskubiti, að við höfum nú ekki hugsað sem best um þá  sem næst okkur standa.   Þegar við erum orðin atvinnulaus og blönk getum  við allavega gefið okkur tíma að sinna börnunum í stað þess að æsa okkur yfir því að það sé búið að svipta okkur aleigunni og  atvinnunni  Við eigum nefnilega ekkert að vera að velta okkur upp úr því hver sé  ástæðan fyrir þessum hremmingum, við erum hvort eð er svo vitlaus að við munum aldrei geta skilið að þetta var eiginlega alveg óvart og  mönnum í útlöndum að kenna. Hvað er svo sem að marka einhverja  aumingja sem eiga ekki einu sinni part í þyrlu?

 Ég fyrir mína parta ætla að halda áfram að sinna börnunum mínum,  ættingjum og vinum. En ég ætla líka að vera reið, alveg fjúkandi  vond, og ekki hætta fyrr en ég hef fengið svör við því hvernig í
 andskotanum allt gat farið hér til helvítis á einni nóttu.

 Afsakið orðbragðið.


Ráðleggingar til kvenna

1.   Hafðu  kvöldmatinn tilbúinn á réttum tíma.  Það veitir honum þá  tilfinningu að  þú  hafir  verið að hugsa um hann og að þér sé annt um þarfir hans.  Flestir karlmenn  eru  svangir þegar þeir koma heim og tilbúinn matur er hluti af  því að láta hann finna hversu velkominn hann er heim, en það er karmönnum nauðsynlegt.

2.   Notaðu  15mín. til að snyrta þig og skipta um föt áður en hann kemur.  Hann er  að koma heim úr leiðinlegri og erfiðri vinnu og er þreyttur. Vertu svolítið hress og skemmtileg til að hressa hann við.

3.   Taktu  upp  allt  rusl og dót.  Farðu eina umferð um húsið og safnaðu  saman skólabókum,  leikföngum,  pappírsrusli  og blöðum.  Renndu svo tusku yfir borðin til  að þurrka af og þrífa svolítið.  Eiginmanni þínum mun finnast hann kominn í friðarparadís og það hefur mikið að segja fyrir hann.
 
4.   Snyrtu  börnin  til.   Það  tekur aðeins nokkrar mínútur að þrífa hendur og andlit  og  greiða  þeim.. Ef þarf, skaltu láta þau skipta um föt.  Þau eru  hans fjársjóður og hann vill sjá þau þannig.

5. Sjáðu  til  þess  að  húsið  sé  hljóðlátt. Slökktu á öllum vélum,  s.s. uppþvóttavél,  þvottavél, þurrkara og ryksugu.  Reyndu að sjá til þess að  börnin hafi hljótt.  Taktu á móti honum með glöðu brosi.


6.   Gættu þess að hella ekki yfir hann kvörtunum þegar hann kemur. Ekki heldur kvarta  þó  hann komi of seint í mat.  Þú getur verið viss um að þínar  kvartanir eru minniháttar í samanburði við það sem hann hefur þurft að þola yfir daginn.

7.   Sjáðu til þess að hann hafi það þægilegt.  Láttu hann halla sér aftur á bak í  hægindastól  eða stingdu upp á því að hann halli sér smástund í rúmið. Vertu tilbúinn með kaldan eða heitan drykk handa honum.  Bjóddu honum að klæða hann úr skónum  og  hagræddu  púðunum  undir  honum.  Ræddu við hann með rólegri, mjúkri röddu.  Leyfðu honum að slaka á.

8.  Láttu hann ráða kvöldinu.  Ekki kvarta þó hann fari ekki með þig út að borða eða  á  aðrar skemmtanir, reyndu í stað þess að skilja að hann hefur fengið sinn skerf af streitu og látum yfir daginn og þarfnast hvíldar heima.
 
10.   Markmiðið er að gera heimilið að stað þar sem eiginmaður þinn getur fundið frið og reglu og getur slakað á eftir erfiðan dag.

Þessar reglur eru teknar úr kennslubók í heimilisfræði síðan 1950.


Blogga lítið því ég er á skólabekk

Ég er í meistaranámi í lagadeildinni á Bifröst.  Er að nema þar fag sem kallast skattaréttur.  Þetta er til að byrja með 4 vikna staðarnám, fyrstu tvær vikurnar var ég að læra inngang að lögfræði og í dag byrjaði ég á inngangi að skattarétti.  Alls eru þetta 6 einingar, svo keyrslan hefur verið með afbrigðum mikil.  Þetta hefur verið til þess að ég hef ekki getað bloggað hérna, en hef samt ekki viljað svíkja ykkur um gullkornin, svo ég hef hent þeim inn svona annað slagið.

Ég verð meira í sambandi við ykkur bloggvini mína þegar þessari törn lýkur 24. ágúst.

En á meðan farið þið vel með ykkur.


Húsamálun skyggir á bloggið

Fyrir viku síðan var tekin ákvörðun um að mála húsið og það hefur tekið allan frítíma frá mér frá því á föstudaginn var.  Ég bý í raðhúsi á tveimur hæðum og hæðsta hæð á þankantinum er 7,5 metir.  Af sérstökum aðstæðum urðum við bara tvær fjölskyldur af fjórum sem máluðum allt húsið fyrir utan glugga, en þar málar hver fyrir sig.  Við klárum veggina í síðasta lagi á föstudaginn.  En við reiknum með að leggja loka hönd á tréverkið hjá okkur á laugardaginn, því laugardagar eru til lukku! 

Það er ótrúlegt að geta verið svona dag eftir dag í besta veðri að vinna svona úti, man ekki eftir svona sumri áður. 

Ég er svo að fara í skólasetningu á sunnudaginn, er að fara í meistaranám í Skattarétti á Bifröst, það verður mjög spennandi fyrir mig.  Ég verð á staðnum í 4 vikur í lok júlí og byrjun ágúst, svo er þetta að mestu fjarnám.


Móðir jörð.

Sonur minn spurði mig áhyggjufullur í dag hvort tré væri lifandi.  Jú það er rétt sagði ég. En þau eru ekki með heila, sagði hann.  Jú mikið rétt sagði ég.  Og þau eru ekki með munn og geta ekki talað, hélt hann áfram.  Já það er rétt, og ég horfði á lifandi laufið sem við vorum að brenna.  Ég var að klippa kalkvisti af trjánum og hafði óvart klippt lifandi lim með.  Hvað er þau geta talað og auðvitað á maður ekki að brenna sprekin, heldur leyfa þeim að hverfa aftur til jarðarinnar.  Mín skoðun er sú að við eigum öll að vera mjög ábyrg í meðferð okkar á jörðinni, við eigum að byrja á okkur og heimili okkar og síðan fikra okkur áfram í umhverfið.


Hreyfing

Ég mæli með Ashtanga Yoga, sem er yogakerfi sem er kennt af Sir. K. Pattabhi Jois í Ashtanga Yoga Research Institute í Mysore, Indlandi.

Þessi yogaaðferð samhæfir andardrátt og stighækkandi æfingarstöður. Aðferð sem eykur innri hita í líkamanum og virkar á mjög örvandi á innri líffæri og hreinsar líkamann (afeitrar vöðva og líffæri). Árangurinn er betra blóðflæði, lipur og sterkur likami og yfirvegaður hugur.

Gildi þess að hreyfa sig verður seint vanmetið. Sérfræðingar mæla með a.m.k. 30 mínútna hreyfingu daglega (sumir tala um að það sé nóg að hreyfa sig 5 daga vikunnar). Best er þegar hreyfingin verður hluti af hinu daglega lífi - hvort sem það er að hjóla eða ganga í og úr vinnu eða að fara alltaf út að ganga á sama tíma. Rannsóknir sýna að sé það gert eykst orkan og þolið, líkamsfita minnkar, vöðvar styrkjast og síðast en ekki síst getur það haft jákvæð áhrif á geðið, því að þeir sem stunda enga hreyfingu eru líklegri til að verða þunglyndir en þeir sem hreyfa sig reglulega.

Þeir sem ganga reglulega í náttúrunni þekkja kraftinn sem sækja má í þessa orku uppsprettu sem náttúran er. Það er sama hvort gengið er meðfram sjónum, uppi á fjöllum, á heiðum eða innan borgar- og bæjarmarkanna - alls staðar er náttúran söm við sig - kraftmikil - heillandi og gefandi. Sá sem nýtur þeirra forréttinda að geta komist í tæri við ómengaða íslenska náttúru ætti ekki að láta það fram hjá sér fara.

Af hverju ætti maður að hreyfa sig?

  • Það minnkar líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum.
  • Það styrkir ónæmiskerfið.
  • Það minnkar líkurnar á að fá sykursýki.
  • Það lækkar blóðþrýstinginn hjá þeim sem þjást af of háum.
  • Það minnkar líkurnar á að fá of háan blóðþrýsting.
  • Það hjálpar til við að byggja upp sterk bein, vöðva og sinar.
  • Það linar þunglyndi og kvíða.
  • Það bætir andlega og félagslega líðan.
  • Það hjálpar til við að hafa stjórn á þyngdinni.
  • Það er auðvelt.
  • Það hentar öllum.
  • Það er gaman.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband