Af bloggi og öðru.

Sæl öll, langt síðan ég hef skrifað hérna inn, það er búið að vera svo mikið að snúast, að eitthvað hefur þurft undan að ganga. 

Ég var að vinna hjá Mest og alveg frá því í maí hefur mikil auka orka farið í það að sinna vinnunni, en þegar ég lít til baka er ég afar þakklát þeim tíma sem ég er búin að verja þarna.  Reynslan er dýrmætur skóli og frábært að hafa haft tækifæri á að vinna með svona góðum starfshópi.  Það hafa myndast vinabönd sem ég veit að eiga eftir að endast ævina út.  Það voru vissulega miklir erfiðleikar í rekstrinum en ég trúið því þar til á síðustu vikum að það væri hægt að yfirvinna vandamálin.  Ytri aðstæður voru slíkar að ekki var við ráðið. 

Foreldrar mínir eru enn að berjast við illvíga sjúkdóma og gengur baráttan upp og ofan, samt finnst mér það fylgjast nokkuð af að þegar annað er slæmt hrakar hinu.  Það sem mér finnst sárast við veikindi þeirra er að sjá þau líða og geta ekki tekið fullan þátt í lífinu. 

Það sem stendur þó uppúr í sumar í huga mínum er þegar við gátum haldið uppá 75 ára afmæli mömmu í sveitinni.  Við mættum þar öll fjölskyldan utan 6 sem höfðu ekki tök á að mæta.  Samt var hópurinn 47 manns og var þar glatt á hjalla.  Það hefur alltaf verið auðvelt fyrir fjölskylduna að nýta augnablikið, gleði og söngur ásamt góðum mat er eitthvað sem allir geta gengið að sem vísu.  Foreldrar mínir nutu vel þessar stundar og var gaman að heyra afa ræða við börnin á sunnudagsmorgninum.  Hann er afar fróður og minnugur maður sem á gott með að segja frá.  Eyjafjöllin eru líka engu lík, þegar þau skreyta sig í sólskininu, landslagið er svo fallegt að engu er líkara en maður sé staddur í töfraveröld þar sem sinfónía náttúrinnar spilar sitt lag.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæl og blessuð. Það hlaut að vera að mín stæði í stórræðum, hef oft hugsað til þín og undrast fjarvistir  nú skil ég þig vel.  Snorri Finnlaugs. er flokksbróðir minn hér að austan, er hann enn hjá MEST?? hann flutti í bæinn held ég til að taka við starfi þar. Svo er það hann Hannes, húsbandið mitt þekkir hann vel frá í den. Minn maður heitir Bjarni og var að vinna á Vélaleigu Böðvars. ef þú hittir eða heyrir í Hannesi máttu skila voða góðri kveðju frá mínum kalli.  Leitt að heyra með foreldra þína, en ánægjulegt að þið gátuð flest öll hist í afmælinu.  Ég bið foreldrum þín þess besta sem hægt er, það er óskaplega erfitt að horfa á foreldra sína þjást, ekki langt síðan hún mamma elskan dó en ég hef pabba til að hugsa um, það er alltaf erfitt að missa foreldra sina þó svo þau séu orðin gömul, það er bara þannig.  Hlakka til að fylgjast með þér á ný mín kæra.  Bestu kveðjur  WooHoo  WooHoo

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2008 kl. 17:06

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl mín elskulega frænka.

Já það er margur reynslubrunnurinn sem verða kann á veginum.

Ég trúi því að það hafi verið ánægja að hittast saman fyrir austan, með fjölskyldunni og samfagna.

kær kveðja.

Gunna.

Guðrún María Óskarsdóttir., 31.7.2008 kl. 23:24

3 Smámynd: Ester Sveinbjarnardóttir

Sælar stöllur og takk fyrir innlitið.  Ásdís ég er í úrkastliðinu, svo ég á ekki von á að hitta þá ágætu menn Snorra og Hannes en vona svo sannarlega að þetta gangi vel hjá þeim.  En þær sögur sem maður hefur heyrt af afarkostum sem starfsmenn þurftu að gangast undir við endurráðningu hjá nýrri kennitölu vekur undrun mína og er að mér skilst ekki löglegt.  Mönnum var boðin launalækkun og eins urðu þeir að gangast undir það að fá ekki almennar launahækkanir.  Glitnir mun dæma sig sjálft af þessum gjörningi sínum að ég tel. 

Gunna það er alltaf svo gaman að vera úti á túni :) þú þekkir þetta nú allt saman :)

Ester Sveinbjarnardóttir, 1.8.2008 kl. 00:58

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Já Ester, æskan var úti á túni í hinum ýmsu keppnisíþróttum allra handa, frá fótbolta til stangarstökks með bambus, og Olympíuleikvelli fyrir austan garð he he...

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 1.8.2008 kl. 02:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband