Listin að segja nei!

Ég geymdi aðra grein sem ég las eftir Gitte og öllum holt að íhuga það sem í henni stendur.

Listin að segja nei og setja mörk. Eftir Gitte Lassen, ráðgjafa, heilara og miðil

Þrjár gerðir takmarka í samskiptum.

  1. Það sem þú sættir þig við frá öðrum til þín.
  2. Það sem þú sættir þig við frá þér til annarra
  3. Það sem þú sættir þig við frá þér til þín sjálfs

Mörk - takmörk, hjálpa þér að greina á milli þess sem ert þú og þess sem ert ekki þú.  Takmörk snúast um það að vera ábyrgur í samskiptum við aðra frekar en að taka ábyrgð á öðrum.  Mörk eru einnig um það að leyfa því góða að koma að sér en halda því slæma frá sér. 

Allir málaflokkar tilheyra annaðhvort manni sjálfum, öðrum eða Guði.

Mín mál eru mínar hugsanir, tilfinningar, mínar langanir, mín orð, ákvarðanir mínar og gjörðir mínar.  Annarra mál eru annarra hugsanir, tilfinningar, annarra langanir, orð, ákvarðanir og gjörðir.  Og mál Guðs er eiginlega flest allt annað.

Að tileinka sér mörk er að læra að sjá um og hugsa um eigin mál.  Þegar maður er villtur í hvar mörkin liggja þá er tilhneiging til að taka ábyrgð á málum annarra.  En þú berð aðeins ábyrgð á að sjá um að þú sjálfur sért hamingjusamur. 

Með því að vera ábyrgur gagnvart öðrum í stað þess að taka ábyrgð á öðrum manneskjum þá ertu til staðar þegar manneskjan þarf á hjálp þinni að halda en heldur þig á mottunni að öðru leyti.  (Þó þetta hljómi kanski kuldalega og óvinsamlega þá er það ekki þannig í raunveruleikanum.)  Með því að hugsa um eigin mál þá hefur maður tögl og hagldir á eigin lífi og gefur öðrum frelsi og traust til að höndla sín mál og lifa sínu lífi.

Á endanum getur þú aðeins stuðlað að eigin þroska og vexti ekki annarra.

Mörk eru líka um það að segja nei.

Það snýst um að segja nei við aðra sem vilja láta þig taka ábyrgð á þeirra málum og að segja nei við sjálfan þig þegar þú vilt bera ábyrgð á málum annarra. 

Tilfinningar þínar munu hjálpa þér að finna hvenær þú vildir hafa sagt nei í stað þess að játa.

Gremja, skömm, sársauki, samviskubit, reiði, vonbrigði og þunglyndi geta allt verið vísbendingar um að þú segir ekki nei þegar þú vildir hafa sagt nei.

Er þér misboðið yfir einhverju sem er sagt við þig?  Láttu gremjuna leiða þig að hugmyndum að lausnum í málinu.

Fyllistu samviskubits og sektarkenndar yfir því hvernig þú komst fram við barnið þitt?  Láttu samviskubitið og sektarkenndina hjálpa þér að búa til mörk sem hindra þig í að gera þetta aftur.

Talar þú stanslaust niður til þín og gerir lítið úr sjálfum þér í huganum?  Láttu þá þunglyndið vísa þér leiðina til að setja sjálfum þér mörk gegn sjálfsniðurrifi.

Í öllum þessum dæmum er lykilorðið - nei. - Nei, ég vil ekki lengur líða það að einhver beiti mig andlegu ofbeldi.  Nei, ég vil aldrei aftur skaða barnið mitt.  Nei, ég vil aldrei aftur niðurlægja sjálfa mig og gera mig svo þunglynda að ég get ekki hreyft mig.  Afhverju segjum við þá ekki nei?  Það eru tvær ástæður fyrir því.

Ef ég segi nei, þá verður hann reiður, hann hafnar mér, ég verð rekin, ég verð ástlaus, ég fæ samviskubit.  Eða, ef ég segi nei, þá mun mér íða illa og finnast ég vera vond og hafa samviskubit yfir því að segja nei.  Það furðulega er þá að því oftar sem maður segir nei því minna samviskubit fær maður og mætir minna neikvæði.  Í staðinn eykst sjálfsálitið með hverju nei-i og maður öðlast meiri virðingu frá öðrum.

Því miður er enn erfiðara að segja nei við sjálfan sig en aðra.  En sem betur fer þá eykst krafturinn til að segja nei við sjálfan sig því oftar sem maður segir nei við aðra.

Fyrst þegar maður getur sagt óhikað nei getur maður sagt óhikað já.

Hvers vegna er það ? Þangað til maður er frjáls til að segja nei þá er jáið þitt, kanski eða nei í dulargervi.  Það er sjaldan ósvikið já.  Þegar þú hefur leyst nei-in úr fjötrum verða já-in líka frjáls.  Það er yndisleg tilfinning að segja já sem kemur frá innstu hjartarótum - Já.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

takk fyrir góðan pistil.

Jenný Anna Baldursdóttir, 12.4.2007 kl. 18:13

2 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Já.

Georg Eiður Arnarson, 12.4.2007 kl. 21:08

3 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæl Ester.

Þetta er stórgóð lesning og meinholl.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 13.4.2007 kl. 00:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband