Færsluflokkur: Dægurmál

Það er auðvelt að týna sér í Borgarfirðinum

Þegar sumarið er á hátindi sínum er fátt unaðslegra en að getað skellt sér í göngu kringum Bifröst.  Ég fór í dag í stutta göngu um 30 mínútur út frá háskólaþorpinu og gekk umhverfis litlu Brók.  Það var að vísu frekar tafsamt, þar sem þaktar blábera, aðabláberja og krækiberja þúfur freistuðu göngugarpa.
Heit golan gældi við mig og bægði frá mesta hitanum sem hafði sprett út svitanum og gert mína hvítu húð enn hættara við sólbruna.  Ég verð alltaf að vera á varðbergi þegar sólin er annars vegar.  Ég er reyndar orðin fagur brún, þó ég sé það ekki í samanborið við aðra.  Ég þarf ekki annað en að taka niður úrið og þá blasir við málarahvít húðin sem ber þess glöggt merki um að ég sé af hinum hvíta kynstofni :)
Fólki finnst ég almennt ekki taka vel lit, en það er í raun mikil vitleysa, ég er mjög fljót að skipta í þann rauða, sem er mun sterkari litur en sá brúni sem svo mikið er sótt eftir.

 


Af bloggi og öðru.

Sæl öll, langt síðan ég hef skrifað hérna inn, það er búið að vera svo mikið að snúast, að eitthvað hefur þurft undan að ganga. 

Ég var að vinna hjá Mest og alveg frá því í maí hefur mikil auka orka farið í það að sinna vinnunni, en þegar ég lít til baka er ég afar þakklát þeim tíma sem ég er búin að verja þarna.  Reynslan er dýrmætur skóli og frábært að hafa haft tækifæri á að vinna með svona góðum starfshópi.  Það hafa myndast vinabönd sem ég veit að eiga eftir að endast ævina út.  Það voru vissulega miklir erfiðleikar í rekstrinum en ég trúið því þar til á síðustu vikum að það væri hægt að yfirvinna vandamálin.  Ytri aðstæður voru slíkar að ekki var við ráðið. 

Foreldrar mínir eru enn að berjast við illvíga sjúkdóma og gengur baráttan upp og ofan, samt finnst mér það fylgjast nokkuð af að þegar annað er slæmt hrakar hinu.  Það sem mér finnst sárast við veikindi þeirra er að sjá þau líða og geta ekki tekið fullan þátt í lífinu. 

Það sem stendur þó uppúr í sumar í huga mínum er þegar við gátum haldið uppá 75 ára afmæli mömmu í sveitinni.  Við mættum þar öll fjölskyldan utan 6 sem höfðu ekki tök á að mæta.  Samt var hópurinn 47 manns og var þar glatt á hjalla.  Það hefur alltaf verið auðvelt fyrir fjölskylduna að nýta augnablikið, gleði og söngur ásamt góðum mat er eitthvað sem allir geta gengið að sem vísu.  Foreldrar mínir nutu vel þessar stundar og var gaman að heyra afa ræða við börnin á sunnudagsmorgninum.  Hann er afar fróður og minnugur maður sem á gott með að segja frá.  Eyjafjöllin eru líka engu lík, þegar þau skreyta sig í sólskininu, landslagið er svo fallegt að engu er líkara en maður sé staddur í töfraveröld þar sem sinfónía náttúrinnar spilar sitt lag.

 

 


Svamli sundnámskeið í Grafarvogi.

 

Sonur minn er búinn að vera á sundnámskeiði sl. viku og undravert hvað framfarirnar eru mikla.  Tæknin sem þeir eru að nota í sundnáminu er sú að hjálpa nemendum að yfirvinna lofthræðslu sem er þess valdandi að nemandinn getur ekki slakað á í vatninu og æft sundtökin.  Eitthvað sem kom mér á óvart, hélt alltaf að þetta væri vatnshræðsla, en það er af og frá.

Mæli með þessu, en veit ekki hvort þeir eru líka að þjálfa Bengal Tígra eins og er hérna á myndinni. 

 


Gleðilegan þjóðhátíðardag!

Kæru bloggvinir og aðrir velunnarar allar góða óskir til ykkar allra.  Ég lít yfir fagran dag á Höfðaborgarsvæðinu, þar sem frísklegt og heilnæmt sjávarloftið leikur við mann og annan.  Allt mannfólkið skartaði sínu besta spariskapi, prúðbúið með gleði í hjarta og sól í sinni, kemur saman og fagnar enn á ný fæðingardegi Jóns forseta og þjóðhátíðardegi íslenska lýðveldisins.

Það er ljúft til þess að vita hvað þessi þjóð hefur áorkað í frelsi sínu og einlæg ósk mín að svo megi vera um ókomna framtíð.  Við erum friðsöm og kærleiksrík athafna þjóð sem tökum á hverju og einu verkefni sem lífið býður okkur af festu og myndarskap.

Lifi Ísland! 

 


1. Maí, Verkalýðsdagurinn / Tveggjapostulamessa / Valborgarmessa

verkalýðsdagurinn, einnig kallaður hátíðisdagur verkamanna og baráttudagur verkalýðsins. Löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966. Dagsetning verkalýðsdagsins á uppruna sinn í samþykkt alþjóðaþings sósíalista árið 1889, sem valdi deginum heitið "alþjóðlegur verkalýðsdagur". Í Bandaríkjunum og Kanada er  haldið upp á verkalýðsdag (Labor Day) fyrsta sunnudag í september. Hugmyndin um að heiðra verkamenn á þennan hátt var sett fram í Bandaríkjunum árið 1882 og fyrstu lagaákvæðin voru sett þar árið 1887. Í Ástralíu og Nýja-Sjálandi er haldið upp á verkalýðsdag í október.  tveggjapostulamessa,messa til minningar um postulana Filippus og Jakob Alfeusson. Valborgarmessa, messa til minningar um enska nunnu, Valborgu, sem gerðist abbadís í Heidenheim í Þýskalandi á 8. öld. Fólk hét á Valborgu til verndar gegn göldrum, og í Þýskalandi  var það útbreidd trú að galdrakonur kæmu saman kvöldið fyrir messudaginn (Walpurgisnacht).

Gleðilegt sumar kæru bloggvinir!

Í dag er sumardagurinn fyrsti / Harpa byrjar.  Í gær léku sér eldur og heitt vatn í miðbænum sennilega til að bræða sér leið inn í sumarhitann, en léku á sama tíma margan manninn grátt.



Brennt barn forðast eldinn

Í tilefni bloggfærslu prakkarans um ástina og sálina fór ég að hugleiða hversu erfitt er að framfylgja einföldum sannindum.  Hversu erfitt það getur verið að treysta öðrum og treysta þeim tilfinningum sem við sjálf berum í brjósti.  

Sem börn eigum við auðvelt með að taka öllu með opnu hugarfari, líta björtum og jákvæðum hlutum á allt og allar, en svo förum við að reka okkur á og þá myndast skrápur sem stækkar og stækkar með hverju áfalli. 

Áður en varir er skrápurinn orðinn svo þykkur að enginn kemst inn fyrir hann nema fyrir hrein töfrabrögð.  Í sálu okkar erum við sátt og þakklát fyrir skrápinn sem ver okkur fyrir öllum áföllum og við getum óáreitt haldið för okkar út í hið óvænta án þess að eiga von á því að tilfinningar okkar keyri okkur í strand með viðeigandi umróti.  Við sem sé siglum öruggan sjó og brosum í hjarta okkar og íhugum hvort það sé ekki eitthvað meira sem við getum gert til þess að tryggja varnir okkar, svo það verði nú alveg öruggt ekki bætist við hjartasár sem aldrei ná að gróa.

 

 


Dæmdu ekki aðra svo þú verðir ekki dæmdur.

Það er búið að vera mikið um sleggjudóma í samfélaginu undanfarið sem fékk mig til þess að hugleiða hvers vegna fólk sest í dómarasæti og dæmir aðra? 

Hvers vegna málar fólk skrattann í hvert horn og ætlar öðrum hugsanir sem ekki þola dagsins ljós?  Eru menn ekki þá um leið að opinbera sínar eigin hugsanir, þeir sem telja sig geta lesið á milli lína og ráðið í ósagða og ógerða hluti?

Er ljótleikinn sem dynur á fólki í fréttum daginn inn og út búinn að lita hugsanir þess og skekkja dómgreind þeirra?

Ég held að það sé í mannsins eðli að honum finnist sín sannindi og sínar hugsanir þær bestu, að skoðanir annarra séu því síðri, sé hugarfarið á þannig er auðvelt að dæma aðra.  En sannleikurinn er í raun sá að það eru til margar leiðir að markinu.  Sannleikurinn birtist í mörgum myndum og enginn einn er æðri öðrum.  Vissulega eru til siðblindir einstaklingar sem ekki virðast taka sönsum en þeir eru fljótir að gera sig marklausa og eru því ekki skoðanabindandi fyrir aðra.  

Það sem ég held að fara mest í taugarnar á okkur varðandi annað fólk er það að við getum ekki stjórnað þeirra gjörðum.  Oft á það við um þá sem okkur þykir vænst um og við höfum væntingar til að hegði sér óðafinnanlega (að okkar mati).  Reiði okkar brýst svo út í gagnrýni og aðfinnslum, en staðreyndir er reyndar sú að þeim tíma okkar væri betur varið í að horfa á okkar innri mann og athuga hvað við getum betur gert til að bæta okkur sjálf.  Ef við ætlum að breyta heiminum verðum við að byrja á okkur sjálfum. 


Draumar úr íslendingasögunum

Íslendingasögur hafa byggst upp á draumum og verið partur af daglegu lífi forferðra okkar, rétt eins og nútímamaðurinn rýnir í merkingar draumana. 


Frægir eru draumar Guðrúnar Ósvífursdóttir í Laxdælu sem Gestur Oddleifsson frá Haga á Barðaströnd réði.  Hana dreymdi um sitt líf þegar hún var ung að aldri og gekk ráðning þeirra eftir í stórum dráttum.

Af draumum Guðrúnar

Gestur Oddleifsson bjó vestur á Barðaströnd í Haga. Hann var höfðingi mikill og spekingur góður og framsýnn um marga hluti, vel vingaður við alla hina stærri menn og margir sóttu ráð hjá honum. Hann reið hvert sumar til þings og hafði jafnan gistingarstað á Hóli.

Einhverju sinni bar enn svo til að Gestur reið til þings og gisti á Hóli. Hann býst um morguninn snemma því að leið var löng. Hann ætlaði um kveldið í Þykkvaskóg til Ármóðs mágs síns.

Gestur ríður nú um daginn vestan úr Saurbæ og kemur til Sælingsdalslaugar og dvelst þar um hríð. Guðrún Ósvífursdóttir kom til laugar og fagnar vel Gesti frænda sínum. Gestur tók henni vel og taka þau tal saman og voru þau bæði vitur og orð góð.

En er á líður daginn mælti Guðrún: "Það vildi ég frændi að þú ríðir til vor í kveld með allan flokk þinn. Er það og vilji föður míns þótt hann unni mér virðingar að bera þetta erindi og það með að þú gistir þar hvert sinn er þú ríður vestur eða vestan."

Gestur tók þessu vel og kvað þetta skörulegt erindi en kvaðst þó mundu ríða svo sem hann hafði ætlað.

Guðrún mælti: "Dreymt hefir mig margt í vetur en fjórir eru þeir draumar er mér afar mikillar áhyggju en enginn maður hefir þá svo ráðið að mér líki og bið ég þó eigi þess að þeir séu í vil ráðnir."

Gestur mælti þá: "Seg þú drauma þína. Vera má að vér gerum af nokkuð."

Guðrún segir: "Úti þóttist ég vera stödd við læk nokkurn og hafði ég krókfald á höfði og þótti mér illa sama og var ég fúsari að breyta faldinum en margir töldu um að ég skyldi það eigi gera. En ég hlýddi ekki á það og greip ég af höfði mér faldinn og kastaði ég út á lækinn og var þessi draumur eigi lengri."

Og enn mælti Guðrún: "Það var upphaf að öðrum draum að ég þóttist vera stödd hjá vatni einu. Svo þótti mér sem kominn væri silfurhringur á hönd mér og þóttist ég eiga og einkar vel sama. Þótti mér það vera allmikil gersemi og ætlaði ég lengi að eiga. Og er mér voru minnstar vonir þá renndi hringurinn af hendi mér og á vatnið og sá ég hann aldrei síðan. Þótti mér sjá skaði miklu meiri en ég mætti að líkindum ráða þótt ég hefði einum grip týnt. Síðan vaknaði ég."

Enn mælti Guðrún: "Sá er hinn þriðji draumur minn að ég þóttist hafa gullhring á hendi og þóttist ég eiga hringinn og þótti mér bættur skaðinn. Kom mér það í hug að ég mundi þessa hrings lengur njóta en hins fyrra. En eigi þótti mér þessi gripur því betur sama sem gull er dýrra en silfur. Síðan þóttist ég falla og vilja styðja mig með hendinni en gullhringurinn mætti steini nokkurum og stökk í tvo hluti og þótti mér dreyra úr hlutunum. Það þótti mér líkara harmi en skaða er ég þóttist þá bera eftir. Kom mér þá í hug að brestur hafði verið á hringnum og þá er ég hugði að brotunum eftir þá þóttist ég sjá fleiri brestina á og þótti mér þó sem heill mundi ef ég hefði betur til gætt og var eigi þessi draumur lengri."

Gestur svarar: "Ekki fara í þurrð draumarnir."

Og enn mælti Guðrún: "Sá var hinn fjórði draumur minn að ég þóttist hafa hjálm á höfði af gulli og mjög gimsteinum settan. Ég þóttist eiga þá gersemi. En það þótti mér helst að að hann var nokkurs til þungur því að ég fékk varla valdið og bar ég hallt höfuðið og gaf ég þó hjálminum enga sök á því og ætlaði ekki að lóga honum. En þó steyptist hann af höfði mér og út á Hvammsfjörð og eftir það vaknaði ég. Eru þér nú sagðir draumarnir allir."

Gestur svarar: "Glöggt fæ ég séð hvað draumar þessir eru en mjög mun þér samstaft þykja því að ég mun næsta einn veg alla ráða. Bændur muntu eiga fjóra og væntir mig þá er þú ert hinum fyrsta gift að það sé þér ekki girndaráð. Þar er þú þóttist hafa mikinn fald á höfði og þótti þér illa sama, þar muntu lítið unna honum. Og þar er þú tókst af höfði þér faldinn og kastaðir á vatnið, þar muntu ganga frá honum. Því kalla menn á sæ kastað er maður lætur eigu sína og tekur ekki í mót."

Og enn mælti Gestur: "Sá var draumur þinn annar að þú þóttist hafa silfurhring á hendi. Þar muntu vera gift öðrum manni ágætum. Þeim muntu unna mikið og njóta skamma stund. Kemur mér ekki það að óvörum þótt þú missir hans með drukknun og eigi geri ég þann draum lengra. Sá var hinn þriðji draumur þinn að þú þóttist hafa gullhring á hendi. Þar muntu eiga hinn þriðja bónda. Ekki mun sá því meira verður sem þér þótti sá málmurinn torugætari og dýrri en nær er það mínu hugboði að í það mund muni orðið siðaskipti og muni sá þinn bóndi hafa tekið við þeim sið er vér hyggjum að miklu sé betri og háleitari. En þar er þér þótti hringurinn í sundur stökkva, nokkuð af þinni vangeymslu, og sást blóð koma úr hlutunum, þá mun sá þinn bóndi vera veginn. Muntu þá þykjast glöggst sjá þá þverbresti er á þeim ráðahag hafa verið."

Og enn mælti Gestur: "Sjá er hinn fjórði draumur þinn að þú þóttist hafa hjálm á höfði af gulli og settan gimsteinum og varð þér þungbær. Þar munt þú eiga hinn fjórða bónda. Sá mun vera mestur höfðingi og mun bera heldur ægishjálm yfir þér. Og þar er þér þótti hann steypast út á Hvammsfjörð þá mun hann þann sama fjörð hitta á efstum stundum síns lífs. Geri ég nú þenna draum ekki lengra."

Guðrúnu setti dreyrrauða meðan draumarnir voru ráðnir en engi hafði hún orð um fyrr en Gestur lauk sínu máli.

Þá segir Guðrún: "Hitta mundir þú fegri spár í þessu máli ef svo væri í hendur þér búið af mér en haf þó þökk fyrir er þú hefir ráðið draumana. En mikið er til að hyggja ef þetta allt skal eftir ganga."

Það væri hægt að skrifa þetta á auðskildari íslensku en ég hélt mér við stíl íslendingasagna vegna þess að teknar voru beinar tilvitnanir úr draumunum og heldar ritstíllinn verður fallegri.  Áður birt http://www.zedrus.is/islenska/gatur%2D%5Fdraumar%2D%5Fspa%2D%5Frunir%2D%5Fheilunarsteinar/draumradningar/


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband