Færsluflokkur: Hreyfing

Sit súr heima

Ég byrjaði árið á því að fara i Rope yoga í Listhúsinu í Laugardal.  Í einu orði sagt yndislegt að byrja daginn þar.  Ég mæti kl. 6, er 3var í viku og ætlaði að synda með þessu, kyrrsetan í vinnunni er of mikil fyrir einn líkama að þola.  En illu heilli gerðist eitthvað með bakið á mér í morgun, svo ég er búin að liggja á hitapoka og jéta bólgueyðandi töflur sem borist hafa inn á heimilið með íþróttagarpinum.  Ég held að þetta sé meira á sálinni, pirringur yfir því að geta ekki gert það sem ég er vön að gera, frekar en eymslin séu að angra mig, ég er eins og þeir sem þekkja mig vita ekki týpan sem vil eyða dögunum í ekki neitt. 
Ég er að vinna á skrifstofu frá 9 til 18.00 virka daga, stunda hugleiðslu yoga á morgnana og tvisvar í viku í setrinu.  Svo er að Rope Yogað 3 í viku.  Ég er í fullu meistaranámi sem er kennt í fjarnámi.  Ég er að prjóna norska ullarpeysu fyrir þann litla, er búin að hekla 6 trefla á árinu, halda uppá eitt afmæli ég er í tveimur saumaklúbbum, og einum klúbb til.  Ég er að semja vísur, þýða og skifa niður minningabrot.
En í dag sit ég ein með hugsunum mínum og hlusta á róandi malið í kettinum, sem notar tækifærið og hringar sig við hliða á mér í rúminu.  Hún er búin að vera mjög upptekin af því að minna heimilisfólkið á að hún er aðaldýrið á heimilinu eftir að hamsturinn kom með jólasveininum.  En vafalaust er hún rétt eins og við þakklát fyrir að þetta var þó hamstur en ekki nashyrningur.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband